Öruggt hjá Árborg

Knattspyrnufélag Árborgar vann í kvöld öruggan 4-0 sigur á Markaregni þegar liðin mættust á gervigrasinu á Ásvöllum.

Guðmundur Ármann Böðvarsson kom Árborg yfir á 22. mínútu og korteri síðar jók Ólafur Tryggvi Pálsson muninn með skallamarki eftir hornspyrnu. Árborg hafði örugg tök á leiknum í fyrri hálfleik og nýr markvörður liðsins, Einar Andri Einarsson, þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum.

Árborgarar mættu full rólegir til leiks í síðari hálfleik og nokkur bið varð á þriðja markinu. Í stöðunni 0-2 fengu heimamenn sitt eina alvöru færi í leiknum þegar þeir áttu skot yfir markið. Adolf Bragason, þjálfari Árborgar, hafði nóg af ferskum fótum á bekknum og það voru varamennirnir sem gerðu út um leikinn.

Árni Sigfús Birgisson kom frískur inn og hann fiskaði vítaspyrnu á 80. mínútu sem Guðmundur Ármann skoraði úr. Fimm mínútum síðar lagði Guðmundur Ármann upp mark fyrir Árna Pál Hafþórsson sem einnig kom inn af bekknum. Árborgarar hefðu reyndar getað aukið muninn enn frekar á lokamínútnum en nokkur góð færi fóru í súginn.

Árborg er enn á toppi A-riðils með 28 stig og hefur 7 stiga forskot á KFG sem á leik til góða.