Öruggt hjá Ægi – Selfoss fór í vító

Elfar Ísak Halldórsson skoraði í venjulegum leiktíma og fékk rautt í framlengingunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið Ægis og Selfoss eru komin í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir leiki dagsins í 32-liða úrslitunum.

Ægir heimsótti Hött/Huginn á Egilsstaði en bæði lið leika í 2. deildinni. Höttur/Huginn fékk vítaspyrnu strax á 9. mínútu og skoraði úr henni en Ágúst Karel Magnússon jafnaði metin fyrir Ægi á 32. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Stefan Dabetic kom Ægismönnum yfir í upphafi seinni hálfleiks og þeir gulu reyndust sterkari á lokakaflanum en Bjarki Rúnar Jónínuson tryggði þeim 1-3 sigur með marki fjórum mínútum fyrir leikslok.

Það var meiri dramatík á Selfossvelli þar sem Selfoss tók á móti 2. deildarliði Magna frá Grenivík. Selfoss stýrði leiknum og Elvar Ísak Halldórsson kom þeim yfir með góðu marki á lokamínútu fyrri hálfleiks. Seinni hálfleikur var markalaus og allt stefndi í sigur Selfoss þangað til Þormar Elvarsson braut klaufalega af sér í vítateignum á lokamínútunni og Magni fékk víti sem þeir jöfnuðu úr.

Því var gripið til framlengingar sem var að mestu tíðindalaus fyrir utan hvað Elfar Ísak fékk rautt spjald fyrir hættulega tæklingu og Selfyssingar því manni færri síðustu tuttugu mínúturnar. Staðan var enn 1-1 að lokinni framlengingu en í vítaspyrnukeppninni reyndust Selfyssingar sterkari og skoruðu úr öllum sínum spyrnum. Gary Martin, Jón Vignir Pétursson, Valdimar Jóhannsson, Adam Sveinbjörnsson og Hrvoje Tokic skoruðu af punktinum og Stefán Þór Ágústsson varði eina spyrnu Magnamanna þannig að Selfoss vann samtals 6-4 sigur.

Fyrri greinTota tekur við Hrunamönnum
Næsta greinScala Brio syngur í messu í Skálholti