Öruggt hjá Þór í Borgarnesi

Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur á 1. deildar liði Skallagríms í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld, 68-97 í Borgarnesi.

Fyrsti leikhluti var jafn fyrstu fjórar mínúturnar en í stöðunni 12-12 skoruðu Þórsarar átján stig í röð og höfðu þægilegt forskot að 1. leikhluta loknum, 14-31.

Annar leikhluti var kaflaskiptur hjá báðum liðum en munurinn hélst sá sami og staðan í hálfleik var 36-53.

Þórsarar gerðu svo endanlega út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir skoruðu 25 stig gegn 13 og breyttu stöðunni í 49-78. Það var aðeins formsatriði að klára síðasta leikhlutann en þar skoruðu bæði lið 19 stig og lokatölur voru 68-97.

Allir leikmenn Þórs komust á blað í leiknum. Michael Ringgold var stigahæstur með 17 stig og 9 fráköst. Darrarnir Govens og Hilmarsson voru báðir með 14 stig eins og Guðmundur Jónsson. Emil Karel Einarsson átti mjög fínan leik, skoraði 11 stig og tók 10 fráköst. Baldur Þór Ragnarsson skoraði 8, Erlendur Ágúst Stefánsson og Marko Latinovic 6, Þorsteinn Már Ragnarsson 4 og Vilhjálmur Atli Björnsson 3.

Fyrri greinBryndís sterkasta kona Íslands
Næsta greinSelfyssingar með tvö gull og eitt silfur