Öruggt hjá Þórsurum

Þór vann nokkuð öruggan sigur á botnliði Skallagríms í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Þorlákshöfn.

Þórsarar leiddu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu en staðan í hálfleik var 49-40. Þór jók forskotið enn frekar í 3. leikhluta en í síðasta fjórðungnum náðu gestirnir tvívegis að minnka muninn niður í þrjú stig. Þórsarar girtu sig í brók í kjölfarið og sigruðu að lokum með tíu stiga mun, 100-90.

Nemanja Sovic var stigahæstur Þórsara með 26 stig, Vincent Sanford skoraði 25, Tómas Heiðar Tómasson 16, Baldur Þór Ragnarsson 11, Grétar Ingi Erlendsson 10, Þorsteinn Már Ragnarsson og Emil Karel Einarsson 4 og þeir Oddur Ólafsson og Halldór Garðar Hermannsson skoruðu báðir 2 stig.

Þórsarar eru í 3. sæti deildarinnar með 8 stig.

Fyrri greinMarín Laufey og Jana Lind unnu kvennaflokkana
Næsta grein41 umsækjandi um stöðu framkvæmdastjóra