Öruggt gegn Völsungi

Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á Völsungi í 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Selfossvelli voru 5-0.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Selfyssingar áttu hættulegri sóknir þó að boltinn rúllaði oft illa á miðsvæðinu. Staðan var 2-0 eftir hálftímaleik og var aðdragandi beggja markanna vel útfærður. Thelma Sif Kristinsdóttir kom Selfoss í 1-0 með skallamarki og Katrín Ýr Friðgeirsdóttir skoraði annað markið með góðu skoti utan af velli. Selfyssingar voru svo nálægt því að bæta við þriðja markinu á 40. mínútu þegar Thelma Sif komst í dauðafæri á fjærstöng eftir hornspyrnu en varnarmenn Völsungs ráku tána í boltann á undan.

Staðan var 2-0 í hálfleik en á 53. mínútu kom Guðmunda Óladóttir Selfoss í 3-0 eftir frábæran undirbúning Thelmu. Guðmunda fékk stungusendingu innfyrir og snuddaði boltann framhjá markverðinum í fjærhornið.

Þrátt fyrir að ógna Selfossmarkinu lítið áttu Völsungar fína spretti á miðsvæðinu og mínútu eftir að Selfoss komst í 3-0 björguðu Selfyssingar á línu eftir snarpa sókn Völsungs. Á 65. mínútu komust Völsungar aftur í gott færi en sóknarmaður þeirra skaut framhjá fjærstönginni.

Selfyssingar gerðu endanlega út um leikinn á 67. mínútu þegar brotið var á Guðmundu úti á vinstri kantinum. Katrín Ýr tók aukaspyrnuna og lyfti boltanum snyrtilega yfir allan pakkann og markvörð Völsungs og í netið.

Á 78. mínútu tók Guðmunda á sprett vinstra megin sem endaði með því að brotið var á henni innan vítateigsins. Selfoss fékk víti og Guðmunda skoraði sjálf úr spyrnunni.

Selfyssingar voru nær því að bæta við sjötta markinu heldur en Völsungar að jafna en á 83. mínútu komst Bríet Ómarsdóttir í dauðafæri í markteignum eftir góða aukaspyrnu frá Fransisku Jóney Pálsdóttur. Bríet hitti boltann illa og sóknin rann út í sandinn en annars voru lokamínúturnar tíðindalausar.

Selfoss hefur 24 stig í efsta sæti B-riðils með markatöluna 21-1.

Fyrri greinUmferð gæti komist á um helgina
Næsta greinSterkur sigur í Grafarvoginum