Öruggt frá upphafi

Hamar vann öruggan heimasigur á Haukum, 89-58, í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Hamar tók leikinn gjörsamlega í sínar hendur í upphafi leiks og skoraði 14 fyrstu stigin. Hamar komst í 38-9 í fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum var 38-11. Kristrún Sigurjónsdóttir fór mikinn í upphafi og skoraði 15 stig á fyrstu tíu mínútunum.

Munurinn jókst lítillega í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 53-22.

Leikurinn var jafnari í síðari hálfleik en Haukar áttu aldrei möguleika á að minnka forskotið sem Hamar náði í upphafi leiks.

Jaleesa Butler skoraði 24 stig fyrir Hamar, tók 9 fráköst og varði 4 skot. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 22 stig, Slavica Dimovska 18 og Fanney Lind Guðmundsdóttir 10.

Hjá Haukum var Íris Sverrisdóttir langstigahæst með 22 stig.

Hamar og Keflavík eru taplaus eftir þrjár umferðir á toppi Iceland Express-deildarinnar.