Öruggt en kaflaskipt gegn Fylki

Selfoss vann öruggan sigur á Fylki í 1. deild karla í handbolta í gærkvöldi. Lokatölur í Árbænum voru 25-35 en frammistaða Selfyssinga í leiknum var nokkuð kaflaskipt.

Leikurinn fór rólega af stað en Selfoss komst snemma í 3-5. Vörnin var góð í fyrri hálfleik en sóknarleikurinn illa ígrundaður á köflum. Forskot Selfyssinga var þó aldrei í hættu en staðan í hálfleik var 9-15.

Selfoss byrjaði síðari hálfleikinn vel og komst í 11-18 og 14-23 eftir nokkur góð hraðaupphlaup. Þá hætti liðið að spila handbolta, varnarleikurinn datt niður og markvarslan í kjölfarið. Fylkir gekk á lagið og minnkaði muninn í 18-24 en nær komust Árbæingar ekki því Selfyssingar girtu sig í brók og kláruðu leikinn ágætlega.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk, Einar Pétur Pétursson og Hörður Bjarnarson skoruðu báðir 6 mörk, Ómar Helgason, Hörður Másson, Árni Geir Hilmarsson, Matthías Halldórsson og Jóhann Gunnarsson voru allir með 2 mörk og þeir Gunnar Ingi Jónsson, Magnús Magnússon og Jóhann Erlingsson skoruðu allir 1 mark.

Helgi Hlynsson varði 11 skot og var með 50% markvörslu og Sverrir Andrésson varði 3 skot og var með 18% markvörslu.

Fyrri greinSelfoss samdi við Brons
Næsta greinBílvelta við Þingvelli