Öruggir sigrar hjá Hamri og FSu

Lið Hamars og FSu unnu örugga útisigra í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar mætti Vestra en FSu sótti Ármann heim.

Heimamenn í Vestra byrjuðu betur gegn Hamri á Ísafirði en í 2. leikhluta tóku Hvergerðingar af skarið og leiddu í leikhléi, 32-47. Hamar gerði svo endanlega út um leikinn í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 47-75. Lokatölur 69-92.

Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá Hamri með 24 stig, Christopher Woods skoraði 21 og tók 11 fráköst, Mikael Kristjánsson skoraði 9 og Smári Hrafnsson og Arvydas Diciunas 8 en sá síðarnefndi tók 15 fráköst að auki.

FSu tók leikinn gegn Ármanni í sínar hendur í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum, 19-31. Staðan var 42-55 í hálfleik. Síðari hálfleikurinn var nokkuð jafn en FSu jók forskotið örlítið áður en yfir lauk og lokatölur urðu 86-104.

Terrence Motley var stigahæstur hjá FSu með 40 stig og 11 fráköst. Svavar Ingi Stefánsson skoraði 18 og Sigurður Jónsson 12.

FSu er í 2. sæti deildarinnar með 6 stig en Hamar í 6. sæti með 4 stig.