Orri sá við Ívari á Hellu

Eðvald Orri Guðmundsson á Pjakknum sigraði í götubílaflokki á Sindratorfærunni á Hellu sem fram fór á laugardaginn.

Þetta var fyrsta umferð Íslandsmótsins og var mikið um dýrðir á Hellu. Ekkert vantaði upp á sýninguna hjá ökumönnunum. Brautirnar framan af voru eknar með miklum tilþrifum, stökkum og veltum við mikinn fögnuð þeirra 5.000 áhorfenda sem lögðu leið sína á svæðið.

Á eftir komu hraðari brautir sem reyndu gríðarlega á bíla og menn sem endaði með fleytingum og mýrarakstri með frábærri skemmtun.

Eðvald Orri sigraði í götubílaflokknum með 1.221 stig en Ívar Guðmundsson á Kölska varð í 2. sæti með 1.007 stig.

Í sérútbúna flokknum var það Þór Þormar Pálsson á Thor sem stóð uppi sem sigurvegari. Þór Þormar hlaut einnig tilþrifaverðlaunin þegar hann sló heimsmetið í vatnafleytingum og ók á 102 km/klst hraða á ánni og sló þar með 4 ára gamalt met Guðbjörns Grímssonar á Kötlu Turbo.

Þór var ekki hættur heldur uppskar flest stig eftir daginn og vann þar með Helluna sem er farandbikar af sverustu gerð.

Þór hlaut 1.890 stig og í 2. sæti varð Ingólfur Guðvarðarson með 1.772 stig. Efstur Sunnlendinga varð Geir Evert Grímsson á Sleggjunni í 3. sæti með 1.755 stig.

Öll nánari úrslit má finna hér.

Hér að neðan er myndband frá Jakob Cecil Hafsteinssyni með öllum helstu tilþrifum laugardagsins.

Fyrri greinKiriyama Family með tónlistarveislu á Húrra
Næsta greinÍ umferðinni undir áhrifum áfengis og kókaíns