Örn og Þorvaldur með héraðsmet á bikar

Örn Davíðsson. Ljósmynd/FRÍ

Lið HSK/Selfoss varð í 4. sæti á 55. Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem haldin var á ÍR-vellinum í Breiðholti fyrr í mánuðinum.

HSK/Selfoss hlaut 50 stig í stigakeppninni en FH sigraði með 110 stig eftir harða keppni við ÍR sem varð í 2. sæti með 90 stig. Breiðablik varð í 3. sæti með 75 stig.

HSK/Selfoss varð sömuleiðis í 4. sæti í stigakeppni kvenna, með 29 stig, og í 5. sæti í stigakeppni karla með 21 stig. FH sigraði báða flokkana með 55 stig.

Örn Davíðsson varð annar í spjótkasti karla, kastaði 67,15 metra, og bætti þar með eigið HSK met í öldungaflokki 30-34 ára um 15 sentimetra. Þá varð Álfrún Diljá Kristínardóttir önnur í sleggjukasti kvenna, kastaði 44,13 metra.

Hinn 15 ára gamli Þorvaldur Gauti Hafsteinsson bætti svo eigið HSK met í 800 m hlaupi í sínum aldursflokki, hljóp á 2:04,96 mín og bætti tíma sinn frá Unglingalandsmótinu á Selfossi um 0,79 sekúndur. Þorvaldur var þarna að keppa í karlaflokki og varð fjórði í harðri keppni efstu manna.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson heldur áfram að bæta tíma sinn á hlaupabrautinni. Ljósmynd/FRÍ
Fyrri greinVerðlaunamyndir boðnar upp í Listagjánni
Næsta greinLangur biðlisti í frístund í Árborg