Örn bikarmeistari og 28 ára gamalt héraðsmet slegið

Örn Davíðsson varð bikarmeistari í sleggjukasti. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir

Lið HSK/Selfoss varð í 5. sæti á Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem haldin var á ÍR-vellinum í Breiðholti um síðustu helgi.

HSK/Selfoss fékk 63 stig í keppninni en FH sigraði eftir hörkukeppni við ÍR með 114 stig. Í kvennaflokki varð HSK/Selfoss í 3. sæti með 31 stig en FH sigraði með 56 stig. Karlalið HSK/Selfoss varð í 5. sæti með 32 stig en þar sigraði FH sömuleiðis, með 58 stig.

Selfyssingurinn Örn Davíðsson varð bikarmeistari í sleggjukasti karla en hann kastaði 46,49 m og vann öruggan sigur í greininni.

Eitt HSK met var slegið á mótinu en sveit HSK/Selfoss bætti héraðsmetið í 1.000 m boðhlaupi í 18-19 ára flokki á tímanum 2:10,18 mín. Sveitina skipuðu þeir Martin Patryk Srichakham, Olgeir Otri Engilbertsson, Daníel Breki Elvarsson og Þorvaldur Gauti Hafsteinsson. Fyrra metið í þessari grein var orðið 28 ára gamalt, sett á Laugarvatni árið 1995 og var 2:10,4 mín.

Fyrri greinPerla Ruth með þrettán mörk í sigurleik
Næsta greinSkorað á orkufyrirtækin að flytja höfuðstöðvarnar á Suðurland