Óráðnar gátur á Selfossvelli

Selfoss er ekki í góðum málum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu eftir 1-2 tap gegn botnliði ÍA á JÁVERK-vellinum í kvöld.

ÍA komst yfir strax á 7. mínútu þegar Cathrine Dyngvold skoraði með góðu skoti frá vítateigslínunni. Gestirnir héldu áfram að ógna og bættu við öðru marki á 20. mínútu.

Aníta Ágústsdóttir átti þá langa sendingu frá hægri inn í vítateig Selfoss þar sem Megan Dunnigan var alein í heiminum og skallaði í jörðina og þaðan spýttist boltinn af blautu grasinu í Chante Sandiford markvörð Selfoss og þaðan í netið.

Selfyssingar minnkuðu muninn á 27. mínútu þegar Alyssa Telang lét vaða af 35 metra færi og boltinn flaug yfir markvörð ÍA og í netið. Glæsilegt mark. Annars var fyrri hálfleikur nokkuð rólegur enda völlurinn blautur og mikið um misheppnaðar sendingar. Staðan var 1-2 í hálfleik.

Fyrri hálfleikur byrjaði fjörlega og bæði lið áttu álitlegar sóknir án þess að ná að skora. Það dró svo til tíðinda á 70. mínútu þegar ÍA fékk dauðafæri en Maren Leósdóttir skaut yfir úr frábærri stöðu. Þremur mínútum síðar náði Heiðdís SIgurjónsdóttir að jafna fyrir Selfoss með góðum skalla eftir hornspyrnu. Eða hvað? Nei, eftir fund með aðstoðardómaranum dæmdi Bríet Bragadóttir markið af, væntanlega vegna leikbrots hjá Selfyssingum. Leikmenn eða áhorfendur urðu þó ekki varir við hvert brotið var, svo það verður að vera óráðin gáta enn um sinn. Markið má sjá hér.

Þegar leið að leikslokum sóttu Selfyssingar mun meira en fengu fá færi og tókst ekki að jafna metin.

Með sigrinum lyfti ÍA sér upp af botninum og hefur nú 8 stig í 9. sæti. Þar fyrir ofan eru Selfyssingar með 10 stig.

Næstu leikir Selfoss eru gegn KR og FH, sem einnig eru í bullandi fallbaráttu. Þessir leikir munu ráða miklu um röð liðanna þegar upp er staðið.