Önnur markaveisla Uppsveita – KFR tók þrjú stig

Uppsveitamenn byrja vel í 4. deildinni og eru með fullt hús stiga. Ljósmynd/Uppsveitir

Fjöldi leikja fór fram í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Uppsveitir og KFR unnu sína leiki og Hamar gerði jafntefli, en Stokkseyringar töpuðu sínum leik.

KFR tók á móti Álafossi á Hvolsvelli í kvöld. Rangæingar voru ekkert að teygja lopann heldur skoruðu sigurmark leiksins strax á 6. mínútu og þar við sat. Ari Rafn Jóhannsson setti boltann í netið og lokatölur urðu 1-0.

Sigurganga Uppsveita heldur áfram en í kvöld vann liðið stórsigur á KB á útivelli í Breiðholtinu. Uppsveitamenn afgreiddu leikinn af öryggi í fyrri hálfleik en staðan var 0-6 í leikhléi. George Razvan skoraði fjögur mörk og þeir Arnar Einarsson og Francisco Vano skoruðu sitt markið hvor. Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en Benedikt Fadel Farag tryggði Uppsveitum 0-7 sigur með marki fimmtán mínútum fyrir leikslok.

Hamar mætti Ými á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi og komst í góða stöðu, 0-2, með mörkum frá Atla Þór Jónassyni og Søren Balsgaard. Ýmismenn voru þó ekki hættir og áður en yfir lauk náðu þeir að jafna metin og lokatölur urðu 2-2.

Þá heimsótti Stokkseyri RB í Reykjaneshöllina. RB komst yfir á 10. mínútu en átta mínútum síðar jafnaði Örvar Hugason metin fyrir Stokkseyri. Staðan var 1-1 í hálfleik en RB skoraði sigurmarkið á tíundu mínútu seinni hálfleiks og þar við sat, lokatölur 2-1.

Staðan í D-riðlinum er þannig að Hamar er í 3. sæti og KFR í því 4. en bæði lið eru með 7 stig. Uppsveitamenn eru ósigraðir með 9 stig á toppi C-riðils en Stokkseyri er enn að leita að fyrsta sigrinum og er án stiga í 7. sæti B-riðils.

Fyrri greinGlæsimörk í góðum sigri Selfoss
Næsta greinFasteignaskattur mun lækka í Mýrdalnum