Sveit Golfklúbbs Öndverðaness sigraði í 3. deild karla og Golfklúbbur Hveragerðis í 4. deild karla á Íslandsmóti golfklúbba sem fram fór um helgina.

Sveit Öndverðaness mun því leika í 2. deild að ári en liðið tryggði sér 1. sætið eftir æsispennandi keppni á Grænanesvelli í Neskaupsstað þar sem GÖ hafði betur gegn Golfklúbbi Húsavíkur á 20. holu í bráðabana. Golfklúbburinn Geysir varð í 4. sæti í 3. deildinni.

Hvergerðingar unnu góðan sigur í 4. deildinni og færast upp í 3. deild en þeir léku á Kirkjubólsvelli í Sandgerði. Golfklúbbur Þorlákshafnar varð í 3. sæti í 4. deildinni og Golfklúbburinn Flúðum í 5. sæti.

Í 2. deild varð Golfklúbbur Kiðjabergs í 3. sæti og Golfklúbbur Selfoss í 7. sæti en deildin var spiluð á Hólmsvelli í Leiru.

Í 2. deild kvenna varð Golfklúbbur Selfoss í 5. sæti og sameiginlegt lið Golfklúbbs Hveragerðis og Þorlákshafnar í 6. sæti.


Sveit Golfklúbbs Öndverðaness. Ljósmynd/GÖ