Ómar Ingi og Janus drógu vagninn

Janus Daði Smárason. Ljósmynd: HSÍ/Mummi Lú

Selfyssingarnir Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason voru bestu leikmenn Íslands sem tapaði 28-24 gegn heimsmeisturum Danmerkur á Evrópumeistaramótinu í handbolta í kvöld.

Ísland lék frábærlega í fyrri hálfleik en undir lok hans skriðu Danirnir framúr og staðan var 17-14 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var eltingarleikur en Íslendingarnir börðust eins og ljón og hleyptu Dönunum aldrei langt frá sér.

Ómar Ingi fékk einkunnina 7,8 hjá HBStatz og Janus Daði 7,7 en þeir félagarnir báru uppi sóknarleik Íslands. Ómar Ingi var markahæstur Íslendinga með 8/1 mörk og Janus kom næstur honum með 4 mörk og sex stoðsendingar. Janus Daði var sömuleiðis með flest stopp í íslensku vörninni í kvöld en hann átti fimm löglegar stöðvarnir.

Teitur Örn Einarsson átti frábæra innkomu undir lok leiks og skoraði tvö hraðaupphlaupsmörk úr tveimur tilraunum en þetta voru fyrstu mínúturnar sem Teitur fékk á mótinu.

Eins og lýðum er ljóst tóku Elvar Örn Jónsson og Bjarki Már Elísson ekki þátt í leiknum, en þeir og fjórir aðrir leikmenn Íslands eru smitaðir af COVID-19.

Fyrri greinJón Daði genginn til liðs við Bolton
Næsta greinHefnist fólki fyrir skoðanir sínar?