Ómar Ingi íþróttamaður ársins og Þórir þjálfari ársins

Ómar Ingi Magnússon, íþróttamaður ársins 2021. Ljósmynd: Samtök íþróttafréttamanna/Mummi Lú

Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon, handboltamaður hjá Magdeburg í Þýskalandi, var í kvöld útnefndur íþróttamaður ársins 2021 af Samtökum íþróttafréttamanna.

„Ég er mjög ánægður með þetta. Árið hefur verið krefjandi fyrir mig og það er heiður að fá að vera í topp tíu með öllu þessu íþróttafólki. Ég er búinn að horfa á þennan atburð frá því ég var lítill strákur og hef horft á margar hetjur vinna þetta, þannig að ég er mjög stoltur af því að standa hér,“ sagði Ómar Ingi eftir að hafa veitt verðlaununum viðtöku.

Ómar Ingi er annar Sunnlendingurinn til þess að hampa þessum eftirsótta bikar en Jón Arnar Magnússon varð íþróttamaður ársins 1995 og 1996.

Ómar Ingi var markakóngur efstu deildar í Þýskalandi í vor og átti næstflestar stoðsendingar. Hann var valinn í lið ársins í Þýskalandi. Í haust hefur Ómar verið mikilvægur fyrir Magdeburg, sem trónir taplaust á toppi þýsku deildarinnar, enda meðal markahæstu og bestu leikmanna í deildinni. Magdeburg vann Evrópudeildina í handbolta og heimsmeistaramót félagsliða þar sem liðið vann Barcelona í úrslitum. Þetta er í fyrsta sinn sem Ómar Ingi Magnússon er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Þórir þjálfari ársins
Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta, var kjörinn þjálfari ársins 2021 af Samtökum íþróttafréttamanna. Kjörinu var lýst í beinni útsendingu í kvöld, þar sem Þórir talaði frá Noregi. „Þetta er stórt fyrir einn sem er stoltur af því að vera Íslendingur,“ sagði Þórir meðal annars í útsendingunni.

Undir stjórn Þóris varð Noregur heimsmeistari fyrr í mánuðinum en Þórir hefur nú stýrt Noregi til sigurs á átta stórmótum. Þetta er fjórða sinn sem Þórir er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins en hann endaði í 2. sæti kjörsins 2012, 2015 og 2017. Vésteinn Hafsteinsson var einnig tilnefndur sem þjálfari ársins í ár.

Þórir Hergeirsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri grein„Bílabrenna“ á Hvolsvelli
Næsta greinAf litlum neista…