Ómar Ingi íþróttamaður ársins og Þórir þjálfari ársins

Ómar Ingi Magnússon, Íþróttamaður ársins 2022. Ljósmynd: handbolti.is/Ívar

Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon, handboltamaður hjá Magdeburg í Þýskalandi, var í kvöld útnefndur íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna, annað árið í röð.

„Ég er ótrúlega þakklátur og ber mikla virðingu fyrir þessum bikar og þessari hefð. Ég er mjög stoltur og þetta er mikill heiður. Árið er búið að vera erfitt, þetta kostar vinnu og allskonar fórnir, en það er það sem þarf til,“ sagði Ómar Ingi eftir að hafa veitt verðlaununum viðtöku.

Þetta er annað árið í röð sem Ómar Ingi hampar þessum eftirsótta bikar en hann er annar Sunnlendingurinn sem afrekar það; Jón Arnar Magnússon varð íþróttamaður ársins 1995 og 1996.

Ómar Ingi átti frábært ár með félagsliði sínu Magdeburg og íslenska landsliðinu. Hann varð þýskur meistari og heimsmeistari félagsliða með Magdeburg og þá varð hann markakóngur á EM í handbolta þar sem Ísland endaði í 6. sæti. Í vor var Ómar valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar en hann var næst markahæsti leikmaður deildarinnar.

Þórir þjálfari ársins – annað árið í röð
Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta, var kjörinn þjálfari ársins 2022 af Samtökum íþróttafréttamanna, annað árið í röð. Grímur bróðir hans tók við verðlaununum en Þórir var í beinni frá Noregi og sagði þar að þetta væri heilmikill heiður. „Það eru margir sterkir og duglegir þjálfarar sem eru tilnefndir og það er mikill heiður að fá svona viðurkenningu,“ sagði Þórir.

Undir stjórn Þóris varð Noregur Evrópumeistari í nóvember en Þórir hefur nú stýrt Noregi til sigurs á níu stórmótum og er hann nú sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar í heimshandboltanum. Þetta er fimmta sinn sem Þórir er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins.

Þórir Hergeirsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinEva María og Aron Emil íþróttafólk Árborgar
Næsta greinUppfært í appelsínugula viðvörun