Ómar ekki í bann

Ómar Vignir Helgason, leikmaður 1. deildarliðs Selfoss í handbolta, sleppur við leikbann þrátt fyrir að hafa fengið rautt spjald í bikarleiknum gegn Val á mánudaginn.

Talsverður hiti var í leikmönnum á lokamínútu leiksins á mánudaginn og fékk Ómar rautt spjald fyrir að stjaka við leikmanni Vals sem féll í gólfið. Augljóst var hins vegar að leikmaðurinn féll við það að stíga á boltann sem var við fætur hans.

Selfyssingar sendu HSÍ myndbandsupptöku af atvikinu og eftir að hafa skoðað hana ákváðu dómarar leiksins að draga rauða spjaldið yfir Ómari til baka. Aganefnd HSÍ taldi því ekki þörf á frekari aðgerðum varðandi þetta mál.

Fyrri greinÞrjár bílveltur í Árnessýslu
Næsta grein„Nýi meirihlutinn skelfilegur“