Ómar bestur og Ísland vann riðilinn

Bjarki Már og Ómar Ingi hæstánægðir. Mynd úr safni. Ljósmynd/HSÍ

Ómar Ingi Magnússon og Bjarki Már Elísson voru bestu mennirnir í frábærri liðsheild Íslands sem vann Ungverja 31-30 í riðlakeppni Evrópumótsins í handbolta í Ungverjalandi í dag.

Leikurinn var jafn og æsispennandi allan tímann en staðan í hálfleik var 17-17. Stuðningsmenn Íslands nöguðu neglurnar upp í kviku á lokamínútunum þar sem kastljósið var á Björgvini Páli Gústafssyni sem varði fjögur skot á síðustu fjórum mínútunum og tryggði Íslandi sigurinn.

Bjarki Már var markahæstur í leiknum með 9/2 mörk og Ómar Ingi kom næstur honum með 8/4 mörk. Ómar sendi þar að auki 8 stoðsendingar í leiknum, margar hverjar yfirskilvitlega góðar. Ómar var valinn maður leiksins að leik loknum en hann var með einkunnina 8,5 hjá HBStatz og Bjarki með 8,3 en báðir voru þeir frábærir í sóknarleiknum.

Elvar Örn Jónsson skoraði 1 mark úr 1 skoti og stóð fyrir sínu í vörn Íslands. Janus Daði Smárason og Teitur Örn Einarsson sátu á bekknum allan tímann.

Þessi úrslit þýða að Ísland fer með 2 stig inn í milliriðilinn en í honum verða einnig Danmörk, Svartfjallaland, Frakkland og Króatía, ásamt einu öðru liði úr undanriðli Íslands. Það ræðst ekki fyrr en eftir leik Hollands og Portúgal í kvöld hvaða lið fylgir Íslendingum áfram.

Keppni í mill­iriðlum hefst 20. janú­ar og fara leikir Íslands fram í Búdapest.

Fyrri grein„Enginn í skotlínu þegar gasið sprakk“
Næsta greinHelgi sækist eftir 1. sætinu