
Í vikunni voru undirritaðir samningar vegna einstaklingsstyrkja frá Ólympíusamhjálpinni fyrir Ólympíuleikana í Los Angeles árið 2028. Tveir sunnlenskir íþróttamenn fá styrk að þessu sinni.
Það eru skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson á Selfossi og sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir frá Hveragerði.
Um að ræða mánaðarlegan styrk vegna kostnaðar sem til fellur vegna æfinga og keppni. Snæfríður Sól fær 1.350 dollara á mánuði í styrk en Hákon Þór 900 dollara. Styrktímabilið hófst þann 1. september síðastliðinn og stendur fram að Ólympíuleikunum, nái styrkþegi að tryggja sér þátttökurétt.
Alls hlutu níu íslenskir íþróttamenn styrk frá Ólympíusamhjálpinni vegna Los Angeles 2028 en auk Snæfríðar og Hákons eru það lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir, skylmingamaðurinn Andri Nikolaysson, spjótkastarinn Sindri Hrafn Guðmundsson, kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir, fimleikakonan Thelma Aðalsteinsdóttir, sundmaðurinn Snorri Dagur Einarsson og taekwondomaðurinn Leo Speight.

