Ólympíuhlaup ÍSÍ var formlega sett í síðustu viku í Víkurskóla í Vík í Mýrdal. Grunnskólar um allt land geta staðið fyrir Ólympíuhlaupi ÍSÍ og allir skólar sem skrá þátttöku komast í pott um vegleg útdráttarverðlaun.
Víkurskóli telur aðeins 66 nemendur og er fámennasti grunnskólinn til þessa sem hefur fengið það hlutverk að setja hlaupið með formlegum hætti. Þar sem Víkurskóli er Heilsueflandi grunnskóli voru yngsti og elsti nemandi skólans, Bergrós Anna og Óliver Ísar, fengin til að draga fána Heilsueflandi grunnskóla að húni og að athöfn lokinni afhenti Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs hjá ÍSÍ, skólanum ýmis leiktæki, svo sem bolta og sippubönd, til að nýta í frímínútum og í íþróttum.

Víkurskóli hafði undirbúið glæsilega hlaupabraut í stórbrotnu landslagi þar sem nemendur gátu valið á milli þess að hlaupa 2,5 km, 5 km eða 10 km leið. Níu nemendur völdu að hlaupa 10 km, sem er met í skólanum, og fengu þeir nemendur aðstoð lögreglu sem lokaði þjóðveginum tímabundið til að tryggja öryggi hlaupara. Viðburðurinn fór fram í stilltu og hlýju veðri og tóku samtals 63 nemendur þátt.
Blossi, lukkudýr ÍSÍ, tók þátt í upphitun, ræsti hlaupið og tók á móti nemendum í markinu. Að hlaupi loknu fengu allir þátttakendur kókómjólk frá MS.

Meðal gesta var Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, sem fylgdist með setningunni. Eftir hlaupið hélt Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands, fræðslu fyrir nemendur í 8.–10. bekk um orkudrykki, samfélagsmiðla og líkamsímynd.
Það er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sem stendur fyrir hlaupinu og er það styrkt af Íþróttaviku Evrópu.


