Ölvir Karl heimsmeistari fjórða árið í röð

Ölvir Karl Emilsson frá Grafarbakka varð heimsmeistari í traktorstorfæru fjórða árið í röð í dag.

Keppnin fór að venju fram á Flúðum þar sem á þriðja þúsund manns fylgdust með traktorsökumönnum þenja græjur sínar í tímabraut í Litlu-Laxá. Keppnin fór vel fram að vanda og þó einn keppandi hafi handleggsbrotnað þá tók hann því af karlmennsku.

Sem fyrr segir stóð Ölvir Karl uppi sem sigurvegari en þetta er í fimmta skiptið sem hann sigrar. Sigurganga hans er óslitin síðustu fjögur ár eða frá því byrjað var að keppa um Jötunn Véla bikarinn.

„Þetta er alltaf sama adrenalínkikkið og maður er strax spenntur fyrir keppninni á næsta ári,“ sagði heimsmeistarinn, glaðbeittur, í samtali við sunnlenska.is eftir keppni. „Ég legg töluvert mikla vinnu í þetta og er búinn að vera að græja traktorinn alla vikuna. Það gerir þetta líka skemmtilegt að við erum þrír í þessu saman á Grafarbakka og erum búnir að vera á fullu í þessu síðustu daga.“

Ölvir Karl ekur Zetor 3511, traktor sem algengur var til sveita á síðustu áratugum. „Hann er reyndar dálítið mikið breyttur, það er kominn annar mótor í hann og tvær túrbínur. Þetta svínvirkar og ég keyri ekki á própangasi eins og sumir keppendanna – ég á það eftir.“

Fyrri greinEkið á stúlku á Flúðum
Næsta greinÖlvaður bílstjóri í Veiðivötnum