Ölver sigraði í karlaflokki

Laugardaginn 14. nóvember hittust um eitthundrað Metabolic iðkendur af landinu öllu á Selfossi og kepptu í líkamlegu hreysti. Sett var upp keppnisbraut með átta æfingum sem eru dæmigerðar fyrir þær hreyfingar sem eru á æfingaplaninu í Metabolic tímunum.

Mikil stemming var í íþróttahúsinu við Vallaskóla þar sem keppnin fór fram og voru áhorfendur duglegir að hvetja sitt fólk áfram í krefjandi keppnisbrautinni. Farið var í gegnum einstaklings-, para- og liðakeppni og voru veitt verðlaun í öllum flokkum. Keppendur voru hvattir til að vera í búningum á meðan á keppni stóð og því mátti sjá allskyns fígúrur og þekktar persónur á keppnisgólfinu. Ánægjulegt var að sjá hversu mikil samstaða og liðsheild einkenndi hópana og gleðin var allsráðandi. Gleðin var ríkjandi frameftir kvöldi þar sem hóparnir sameinuðust í mat og kvöldskemmtun í félagsheimilinu Hlíðskjálf.

Metabolic hópurinn frá Kópavogi fékk stærstu verðlaun dagsins með sigri í liðakeppni og vörðu þar með titilinn frá síðustu keppni. Ölver Jónsson frá Selfossi sigraði með glæsibrag í einstaklingskeppni karla og Laufey Karlsdóttir frá Spörtu í Kópavogi vann einstaklingskeppni kvenna.

Allir sigurvegarar voru leystir út með veglegum verðlaunum, ásamt því að Kópavogshópurinn fær að halda farandbikar fyrir liðakeppni fram að næstu Metabolic leikum, sem stefnt er að fari fram á Sauðarkróki á næsta ári.

Fyrri greinSilungakvintett á tónleikum í Þorlákshöfn
Næsta greinSætur sigur eftir spennandi lokakafla