Olsson og Leal fóru aftur heim

Amanda Leal skrifaði undir hjá Selfyssingum í janúar. Ljósmynd/@calstormsoccer

Bandarísku leikmennirnir Mallory Olsson og Amanda Leal munu ekki leika með kvennaliði Selfoss í knattspyrnu í sumar.

Selfyssingar kynntu nýju leikmennina sína fyrr í vetur, þær Olsson sem er framherji og Leal sem er markvörður. Þær komu til landsins í febrúar en héldu aftur til sinna heima rúmum hálfum mánuði síðar.

„Þegar við fáum leikmenn erlendis frá, þá er stundum ekki hægt að fá þá á reynslu. Þar af leiðandi eru fyrstu 2-3 vikurnar oft eins og reynslutímabil og í þessum tilvikum þá gekk þetta ekki upp. Leal óskaði eftir því að losna undan samningi af persónulegum ástæðum og varðandi Olsson þá var komist að samkomulagi að segja upp samningnum hennar,“ sagði Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildarinnar í samtali við sunnlenska.is.

Selfyssingar hafa þétt raðirnar í þessari viku og tilkynnt komu mexíkósku landsliðskonunnar Jimena López og hinnar efnilegu Emelíu Óskarsdóttur.

Að sögn Björns Sigurbjörnssonar eru Selfyssingar með nýjan markmann í sigtinu auk þess sem einn leikmaður til viðbótar gæti bæst í hópinn og ættu þau mál að vera öll á hreinu í næstu viku, áður en liðið heldur í æfingaferð til Tenerife eftir páska.

Fyrri greinEin sú efnilegasta lánuð í Selfoss
Næsta greinFjóla Signý kaupir Fætur toga