Ólöf Eir vann Þórðarbikarinn

Árlegt Þórðarmót sunddeildar Umf. Selfoss var haldið sl. sunnudag í Sundhöll Selfoss. Ólöf Eir Hoffritz fékk Þórðarbikarinn fyrir stigahæsta sundið.

Þórðarmótið er haldið til minningar um Þórð Gunnarsson þjálfara og sundkennara sem starfaði lengi á Selfossi.
Að þessu sinni voru 85 keppendur skráðir á mótið en þeir komu fá Selfossi, Hveragerði, Hvolsvelli og Grindavík.

53 börn 10 ára og yngri fengu afhent þátttökuverðlaun en yngstu keppendur mótsins voru 5 ára og komu frá Grindavík. Mjög margir keppenda voru að taka þátt í sínu fyrsta móti enda mörg hver einungis búin að æfa í nokkrar vikur. Á mótinu var m.a. keppt í mjög óhefðbundnum greinum eins og t.d. fótatökum og rennsli.

Þetta mót bar svo sannarlega yfirskriftina „þröngt mega sáttir sitja” en mótið tók u.þ.b. 3 klukkustundir og var keppt í 13 greinum. Mótið gekk ótrúlega vel og lögðust allir á eitt að gera það skemmtilegt.

Eygló Gunnarsdóttir, systir Þórðar heitins, afhenti stigahæsta sundmanni mótsins, Ólöfu Eir Hoffritz, Þórðarbikarinn, en hann er veittur fyrir stigahæsta sundið sem var 50m skriðsund og gaf það Ólöfu 478 FINA stig.

Sunddeildin vill koma á framfæri þökkum til allra keppenda, foreldra, þjálfara og starfsmanna mótsins og ekki síst starfsmönnum Sundhallar Selfoss sem lögðu sig fram um að gera mótið mögulegt.