Olísmótinu frestað

Frá Olísmótinu í fyrra. Ljósmynd/SportHero

Olísmótinu í knattspyrnu hefur verið frestað, en það átti að fara fram á Selfossi í sextánda skipti helgina 7. til 9. ágúst næstkomandi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórn knattspyrnudeildar Selfoss.

„Mótið er stærsta verkefni knattspyrnudeildar Umf. Selfoss ár hvert og hefur undanfarnar vikur verið í mörg horn að líta við skipulag og undirbúning mótsins, ekki síst í ár þar sem skipulag mótsins var sniðið að þeim fjöldatakmörkunum og sóttvarnaraðgerðum sem í gildi hafa verið. Skráning á mótið hefur aldrei verið meiri og stefndi í metþátttöku,“ segir í tilkynningunni.

Í ljósi hertra aðgerða og samkomutakmarkana vegna COVID-19 sem kynntar voru í dag hafa knattspyrnudeildin og Olís ákveðið að fresta mótinu um óákveðinn tíma en vonir standa til að mótið geti farið fram í ágúst eða september ef aðstæður leyfa.

„Þrátt fyrir að knattspyrnudeild Selfoss sjái sér fært að halda mótið með breyttu sniði innan gildandi viðmiða telur deildin það vera samfélagslega skyldu sína að sýna ábyrgð og fresta mótinu þar til aðstæður í samfélaginu leyfa. Við tökum heilshugar undir orð Víðis um að „nú gildir að standa saman og tækla þetta af ábyrgð“ og hvetjum okkur öll sem eitt til að tækla komandi daga og vikur af ábyrgð, samstöðu og skynsemi,“ segir ennfremur í tilkynningunni frá stjórn knattspyrnudeildar Selfoss.

Fyrri greinBoðflennur
Næsta greinAðgerðastjórn hvetur fólk til að vera heima