Olga ráðin framkvæmdastjóri fimleikadeildarinnar

Olga Bjarnadóttir, yfirþjálfari fimleikadeildar Umf Selfoss, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri deildarinnar og hefur hún þegar tekið til starfa.

Um er að ræða 50% starfshlutfall og mun Olga áfram gegna stöðu yfirþjálfara deildarinnar ásamt því að hafa umsjón með Fimleikaakademíu Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Fimleikadeildin hefur frá stofnun vaxið jafnt og þétt og er nú fjölmennasta deild Umf. Selfoss en iðkendur eru rétt ríflega 500 talsins. Meginfjöldinn leggur stund á hópfimleika en einnig rekur deildin íþróttaskóla fyrir börn á leikskólaaldri, sinnir fullorðinsfimleikum og býður upp á æfingar í parkour sem njóta vaxandi vinsælda.

Deildin hefur náð einstaklega góðum árangri hvort sem er á landsvísu eða á mótum erlendis. Á liðnu starfsári æfðu fjórtán ungmenni fimleika með landsliði Íslands, tólf þeirra voru valin í landsliðið þar sem þrjú þeirra unnu Evrópumeistaratitil og hin lentu í 4. sæti í sínum riðlum. Þetta er ótrúlegur árangur hjá ekki stærra sveitarfélagi. Í tilkynningu frá stjórn fimleikadeildarinnar segir að árangurinn sé ekki síst að þakka öflugum þjálfurum og má nefna að tveir þjálfarar deildarinnar, Olga og Sigrún Ýr, voru valdir til að þjálfa landslið Íslands á liðnu ári.

Mikil vinna er framundan hjá deildinni. Í maí verður vormót Fimleikasambands Íslands haldið á Selfossi og hafa þegar ríflega 700 keppendur skráð sig til keppni, þeir dvelja á Selfossi eina helgi ásamt þjálfurum og aðstandendum. Í sumar er Landsmót UMFÍ haldið á Selfossi og þar mæta flestir bestu fimleikamenn landsins til keppni. Síðast en ekki síst verða bæði Evrópumeistaramótið í fimleikum og Norðurlandameistaramótið haldin á Íslandi árið 2014 og þar hyggst deildin eiga sterka fulltrúa.

Olga mun sinna þeirri skipulagsvinnu fyrir hönd deildarinnar sem ekki fellur undir verksvið þjálfara. Á undanförnum árum hefur sú vinna verið unnin í sjálfboðavinnu af þjálfurum, stjórn, foreldrum og öðrum velunnurum og eiga þessir aðilar allir miklar þakkir skildar fyrir óeigingjarna vinnu. Deildin mun áfram leita aðstoðar þessara aðila, en gera má ráð fyrir að allt starf deildarinnar verði skilvirkara og skipulagðara með tilkomu hins nýja starfskrafts.

Fyrri greinFlóahreppur kominn á Facebook
Næsta greinMargrét Bóasd: Þakkir fyrir glæsilegan tónlistarviðburð