Olga með tvö í 3-0 sigri

Selfosskonur sigruðu baráttuglatt lið Fjölnis 3-0 í 1. deild kvenna í kvöld þar sem nýjasti liðsmaðurinn, Olga Færseth, skoraði tvö marka liðsins.


Einar Matthías Kristjánsson skrifar frá Selfossvelli:

Það tók Olgu ekki langan tíma að minna á sig því eftir um kortersleik flikkaði besti maður vallarins, Guðmunda Brynja Óladóttir, boltanum innfyrir á Olgu sem þurfti ekki annað en leggja hann í netið. Vel gert hjá báðum og vel fagnað af ágætum fjölda áhorfenda sem mættu á völlinn í þetta úrvals fótboltaveður sem var á Selfossi í kvöld.

Tíu mínútum seinna átti Anna María Friðgeirsdóttir ágætt skot sem hafnaði í stönginni. Gestirnir vörðust aftarlega og gáfu fá færi á sér enda gekk Selfyssingum erfiðlega að finna glufu á vörn gestanna. Að sama skapi var sóknarþungi Fjölnis enginn og kom ekki skot á Selfossmarkið fyrr en eftir rúmlega klukkutímaleik. Selfossvörnin var traust og miðjan öflug en þar fóru fremstar í flokki fyrirliðinn Þóra Margrét sem ryksugaði upp í öftustu víglínu og Anna Þorsteinsdóttir sem stjórnaði leiknum á miðjunni.

Á köflum í leiknum virtist sem Selfyssingar söknuðu Katrínar Ýrar Friðgeirsdóttir sem er frá vegna krossbandaslits og þeirrar yfirferðar og hraða sem hún býr yfir. Á móti kom að hin 16 ára Guðmunda Brynja var út um allt í framlínunni og varnarmenn Fjölnis réðu ekkert við hana þegar leið á leikinn.

Á 50. mínútu átti Guðmunda hörkuskot fyrir utan sem fór framhjá markinu og stuttu seinna átti hún góðan sprett sem endaði með sendingu innfyrir, sendingin var svosem ekkert frábær en það skiptir ekki öllu máli þegar hrægammur eins og Olga Færseth er í teignum og skallaði hún boltann örugglega í netið, 2-0 fyrir Selfoss.

Helsta markverða sem gerðist á lokakaflanum var að Olga Færseth var tekin af velli eftir rúmlega klukkutíma leik, enda ekki spilað fótbolta í tæp 2 ár. Guðmunda hélt áfram að hrella vörn Fjölnis og var oft við það að sleppa í gegn um á sitt einsdæmi, sem og hún gerði svo á 70.mínútu en lét Dagnýu Valgeirsdóttir ágætan markvörð Fjölnis verja frá sér. Frákastinu náði Íris Sverrisdóttir sem nýlega var komin inna fyrir Olgu og hún renndi boltanum í autt markið og staðan því orðin 3-0 fyrir Selfoss.

Á lokakaflanum komst Guðmunda tvisvar í gegn en lét Dagnýju verja frá sér í bæði skiptin. Þriggja marka sigur því staðreynd í leik þar sem Selfossliðið virtist aldrei spila að fullri getu, Guðmunda skipti sköpum í þessum leik og var klárlega maður leiksins og ekki skemmdi fyrir að hafa Olgu Færseth frammi sem virðist skora bara af gömlum vana.

Stelpurnar hafa þegar tryggt sér sæti í umspili um sæti í efstu deild en eiga þó eftir að fara til Eyja þar sem þær spila við ÍBV í úrslitaleik um efsta sætið í riðlinum.

Fyrri greinFjóla náði NM-lágmarki
Næsta greinÆgir í vondri stöðu