Olga dansaði af gleði

Olga Bjarnadóttir. Ljósmynd/UMFÍ

„Ég var svo rosalega glöð þegar ég heyrði fréttirnar í hádeginu að ég tók sigurhringinn,“ segir Selfyssingurinn Olga Bjarnadóttir.

Olga, sem er framkvæmdastjóri Gerplu í Kópavogi, var á veitingastað í Reykjavík í hádeginu í dag þegar hún heyrði í fréttum að heilbrigðisráðherra hefði fallist á tillögur sóttvarnalæknis, slakanir á samkomutakmörkunum væru í kortunum og gætu börn á leik- og grunnskólaaldri farið að æfa íþróttir á nýjan leik á miðvikudag í næstu viku.

„Mér lýst mjög vel á tilslakanir. Þetta lítur mjög vel út fyrir 6-15 ára sem geta farið af stað. Enn eru samt hömlur á þeim ungu því foreldrar þeirra geta ekki fylgt þeim í íþróttir. Þeir eldri eru heldur ekki jafn heppin. En við þurfum að sjá hvað felst í reglugerðinni og fögnum öllum skrefum,“ segir Olga í léttu viðtali á vef UMFÍ.

Olga segir að hún hafi tekið íþróttabannið mjög inná sig undanfarnar vikur og því hafi gleðiviðbrögðin verið frá hjartanu. „Andrenalínið rauk af stað. Ég var eins og belja að vori! Þjóninn á veitingastaðnum hrökk reyndar í kút og sagði bara: Hello, dancing queen! En ég gat ekki sagt annað en sorry!“ segir Olga.

Frétt UMFÍ

Fyrri grein32 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinMagnús Ingi í Árborg