Ólafur til liðs við Selfyssinga

Frjálsíþróttamaðurinn Ólafur Guðmundsson hefur tilkynnt að hann muni keppa undir merkjum Umf. Selfoss á komandi keppnistímabili og er hann þegar orðinn löglegur til keppni með Selfyssingum.

Ólafur, sem var liðsstjóri HSK-liðsins í frjálsum á Landsmóti UMFÍ síðastliðið sumar og jafnframt stigahæsti karlinn í frjálsíþróttakeppni mótsins, færir sig um set innan HSK, úr Umf. Laugdælum í Umf. Selfoss.

Hann er öllum hnútum kunnugur á Selfossi enda fæddur og uppalinn hjá Ungmennafélaginu auk þess sem hann hefur þjálfað frjálsar og verið drifkraftur í starfi félagsins um langa hríð.

Frá þessu er greint á umfs.is

Fyrri greinVÍS tryggir Rangárþing ytra
Næsta greinFerðamálastofa í samstarf við Gatnamót