Ólafur safnaði gulli og metum á meistaramóti öldunga

Ólafur Guðmundsson, Umf. Selfoss, fór hlaðinn gullverðlaunum heim af Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum öldunga sem haldið var í Kaplakrika í Hafnarfirði í síðustu viku.

Ólafur gerði sér lítið fyrir og hlaut átta gullverðlaun og ein silfurverðlaun á mótinu í flokki 50-54 ára karla. Hann sigraði í 100 m hlaupi, hástökki, stangarstökki, langstökki, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og lóðkasti og hlaut silfurverðlaun í sleggjukasti.

Gullregnið var ekki eini áfangi Ólafs á mótinu því hann setti níu HSK met í öldungaflokki 50-54 ára á mótinu.

Hann hljóp 100 m á 13,26 sek og bætti fimm ára gamalt met Guðmundar Nikulássonar um tæpa sekúndu. Þá stökk hann 1,55 m í hástökki og bætti sextán ára gamalt met Jasonar Ívarssonar um 8 sm. Ólafur tvíbætti HSK metið í langstökki þegar hann stökk 5,18 m og síðan 5,29 m en metið í þessum flokki átti Hreinn Erlendsson og var það 4,60 m, sett árið 1986.

Einnig bætti Ólafur 31 árs gamalt met Ólafs Unnsteinssonar í kúluvarpi um 28 sm, kastaði 12,72 m en bætti svo um betur og kastaði 12,91 m. Þá tvíbætti hann héraðsmetið í spjótkasti, sem hann átti sjálfur, fyrst um 38 sm þegar hann kastaði 40,66 m en lengsta kast hans á mótinu reyndist svo vera 41,82. Að síðustu bætti Ólafur eigið met í lóðkasti um 27 sm, kastaði 14,53 m.

Metamánuður hjá Óla
Þetta eru ekki einu afrek Ólafs í ágústmánuði, því tveimur dögum fyrir öldungamótið keppti hann í stangarstökki á Selfossmóti á Selfossvelli. Þar tvíbætti hann héraðsmetið í greininni í flokki 50-54 ára, stökk fyrst 2,70 m og síðan 3,00 m en gamla metið átti hann sjálfur og var það 2,50 m.

Jón, Sigmundur og Örn settu líka öldungamet
Fleiri öldungamet hafa fallið á árinu en á Vormóti öldunga í júní síðastliðnum tvíbætti Jón M. Ívarsson HSK-metið í kúluvarpi í flokki 70-74 ára, kastaði fyrst 8,19 og svo 8,40 m. Á sama móti kastaði Sigmundur Stefánsson spjóti 18,14 m og setti héraðsmet í sama aldursflokki.

Síðast (en ekki síst) skal svo nefna að Örn Davíðsson er snúinn aftur í Ungmennafélag Selfoss. Hann keppti í spjótkasti á Selfossmóti þann 22. ágúst á Selfossvelli og þríbætti þar HSK-öldungametið í greininni í flokki 30-34 ára. Jóhann Vignir Hróbjartsson átti gamla metið, 56,80 m en Örk stórbætti þann árangur og kastaði 62,68 m, svo 64,31 m og lengsta kastið varð svo 67,00 m. Örn er þar farinn að nálgast HSK-met karla í spjótkasti en það á Unnar Garðarsson, 69,94 m síðan árið 1989. 

Fyrri greinÖrninn er lentur í Osló
Næsta greinE.coli bakteríur í neysluvatni á Klaustri