Ólafur Hrannar áfram með Hamarsliðið

Ólafur Hrannar Kristjánsson, þjálfari Hamars. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Hrannar Kristjánsson, þjálfari karlaliðs Hamars í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Hamars.

Ólafur tók við liðinu í fallsæti í júlí síðastliðnum en með því að vinna síðustu fimm leikina á Íslandsmótinu tókst Hamri að halda sæti sínu í 4. deildinni.

„Það kom óvænt upp að ég fór á fund í Hveragerði um að koma þjálfa Hamar. En fundurinn var góður og hópurinn spennandi. Mikið af uppöldum Hvergerðingum og flottir aðkomumenn sem bjuggu til skemmtilega blöndu,“ segir Ólafur.

Hann segir mikinn metnað innan félagsins og að sterkur leikmannahópur hafi náð saman á ögurstundu í sumar.

„Það er búið að vera ótrúlega gaman að koma inn í þetta samfélag Hamars og kynnast öllu því fólki sem starfar í kringum félagið. Leikmannahópurinn er ótrúlega flottur og með risastórt hjarta. Vaxtarmöguleikarnir í knattspyrnudeildinni eru miklir, bæði karla- og kvennamegin, og það er eitthvað sem hefur heillað mig. Nú er ráð að allir rói í sömu átt og hjálpist að við að koma knattspyrnunni hjá Hamri á hærri stall. Áfram Hamar,“ segir Ólafur að lokum.

Fyrri greinÞrenn umhverfisverðlaun veitt á Kjötsúpuhátíðinni
Næsta greinSelfoss fær þýskan markmann