„Okkur er refsað grimmilega“

Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Selfoss, var brúnaþungur í leikslok eftir 1-2 tap gegn Fylki í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta var bara eins og síðustu leikir að mínu mati. Við höfum verið betri aðilinn en okkur er refsað grimmilega fyrir barnaleg mistök. Þetta gekk bara alls ekki hjá okkur í dag og féll þeirra megin,“ sagði Viðar í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Enn og aftur féllu Selfyssingar á prófinu þegar kom að föstum leikatriðum. Bæði mörk Fylkis komu eftir aukaspyrnur og níu af síðustu tíu mörkum sem Selfoss hefur fengið á sig í deildinni hafa komið úr föstum leikatriðum. Viðar var skiljanlega ekki sáttur við þetta.

„Ég á bara ekki til orð. Það vantar alla árásargirni hjá okkur og ef hún er ekki til staðar í föstum leikatriðum þá eru þeir bara að fara að skora hjá okkur, það er bara þannig.“

Selfoss fékk tvö mörk á sig á stuttum kafla en manni færri í stöðunni 0-2 kviknaði fyrst einhver neisti í sóknarleiknum.

„Við eigum ekki að þurfa mark á okkur til þess að fara í gang,“ segir Viðar. „Það vantaði bara herslumuninn í kvöld. Ef við hefðum náð að skora á undan þá hefði þetta orðið allt annar leikur en við gerðum það ekki og því fór sem fór,“ sagði framherjinn sem átti að fá vítaspyrnu strax á 4. mínútu en dómarinn dæmdi leikaraskap á Viðar.

„Hann skrínaði mig en dómarinn vildi meina að ég hefði látið mig detta. Ég er ekki sammála því enda er lítið vit í því að láta sig detta þegar maður er kominn framhjá markverðinum,“ sagði Viðar að lokum.