„Ókei, hvar er ég að fara að lenda?“

Það eru engar ýkjur að segja að Mýrdælingurinn Haukur Viðar Einarsson hafi sýnt rosalegustu tilþrif sem sést hafa í sögu íslensku torfærunnar þegar hann tók tvöfalt heljarstökk með skrúfu í lokabrautinni í torfærukeppnni á Akranesi síðastliðinn laugardag. Tilþrif sem hvaða fimleikastjarna sem er gæti verið stolt af.

Myndband af þessum svakalegu tilþrifum frá ýmsum sjónarhornum má sjá hér að ofan en það er frá G7 Media.

Ákvað að gera eitthvað svakalegt
„Málið var með þessa braut að ég var með forystuna á Íslandsmótinu fyrir þessa keppni og ætlaði náttúrulega að halda því áfram. Dagurinn var ekki búinn að ganga neitt sérlega vel hjá mér, ég var búin að festa mig á kviðnum í þriðju braut og henti frá mér öllum möguleikum á sigrinum þar,“ segir Haukur Viðar í samtali við sunnlenska.is.

„Svo þegar það var komið að þessari síðustu braut þá var ég búinn að rífa mig upp um fjögur sæti, upp í 6. sætið. Ég ákvað að fara í þessa braut og gera eitthvað svakalegt. Vélin sem ég keyri á notar nítró, ég nota yfirleitt 150 hestöfl nítró á vélina að öllu jöfnu en ég get stækkað um helming með því að ýta á einn takk inn í bíl sem ég sést gera í vídeóinu,“ segir Haukur sem er frá Norður-Hvoli í Vík í Mýrdal.

„Hvert er ég að fara?“
Haukur segir að hann hafi stækkað skotið í 300 hestöfl í miðri brekkunni. „Það sést svona hvernig bíllinn hálfpartinn tryllist og fer af stað. Þetta gerist svo hægt en samt svo hratt og ég hugsa bara „hvert er ég að fara?“. Ég sá himininn og ég sá jörðina og ég sá himininn og ég bara „ókei, hvar er ég að fara að lenda? Alveg örugglega ekki upp á toppnum miðað við hvernig þetta lítur út“. Og svo allt í einu bara lenti ég og það fyrsta sem ég sé er að keppnisstjórinn kemur hlaupandi til mín í þvílíku panikki en ég var furðu rólegur,“ segir Haukur þegar hann er beðinn um að lýsa atvikinu.

„Ég setti bara hendurnar upp og fagnaði og svo keyrði ég bara bílinn. Hann virtist ekki vera neitt mikið skemmdur en er það aðeins. Það þarf aðeins að klappa honum. Hann fékk svolítið högg á hægra afturhornið. Það bognaði afturhluti veltibúrsins sem við þurfum að laga, samt ekki aðal boginn, heldur bara rör sem halda vatnskassa og bensíntanki og svona og við lögum það kannski svona á einni viku,“ segir Haukur.

Mestu tilþrif sögunnar
„Þetta var alveg rosalegt og maður kannski fattar það ekki fyrr en maður horfir á þetta eftir á, hvað gerðist. Þó að ég segi sjálfur frá þá hefur það aldrei gerst í sögunni að bíll taki tvöfalt flipp og skrúfu 360° gráður í einu. Þetta fer væntanlega í sögubækurnar,“ segir Haukur og bætir því við að 450.000 manns hafi horft á myndbandið á Facebook-síðunni hans. „Ætli þetta verði ekki eitthvað frægt, ég býst við því.“

Haukur bendir á að í torfæruheiminum kallist þetta ekki velta. „Veltibúr bílsins snertir aldrei jörðina. Þetta er ekki velta þó að þetta líti út fyrir að vera það. Þetta kallast tilþrif í torfæru – mestu tilþrif sögunnar.“

Mamman í sjokki
Aðspurður út í viðbörgð fjölskyldunnar við þessum tilþrifum segir Haukur að kærastan hafi bara verið mjög ánægð. „Hún var ekkert að taka þetta inn á sig, en mamma var hálfpartinn í sjokki í smá tíma. En það hefði alltaf verið verra ef ég hefði ekki lent á hjólunum og keyrt svona í burtu, það lítur miklu sakleysilegra út. Ef ég hefði endað á hvolfi og það hefði kannski þurft að ná mér út úr bílnum þá hugsa ég að það hefði hefði orðið meira panik á mönnum,“ segir Haukur.

„Ég heyrði eftir á að fólk var farið að senda eftir sjúkrabíl þegar það heyrði dynkinn þegar ég lenti í jörðinni. Þetta var náttúrulega svakalegt högg en þetta eru rör sem eru úr 52″ stáli, sérstillt, sem kengbogna. Það er alveg magnað að hugsa til þess hvað þetta hefur verið mikið högg sem kemur þarna,“ segir Haukur.

„Svo er það eitt að segja hvað torfærubílar eru öryggir þegar þú kemur og labbar nánast ómeiddur út úr bílnum eftir svona veltu – þó að maður sé náttúrulega aðeins aumur í öxlunum útaf beltunum og hansbúnaðinum. Þetta er náttúrulega svakalega flott að menn labba bara burt eftir þetta og eru heilir. Þetta sýnir bara hvað bílar í þessu sporti eru rosalega sterkir,“ segir Haukur að lokum.

Skúli á palli og Sunnlendingar í efstu sætum
Þór Þormar Pálsson sigraði í sérútbúna flokknum í keppninni á Akranesi en Sunnlendingar áttu einn mann á palli, Skúla Kristjánsson frá Ljónsstöðum í 2. sæti. Haukur Þorvaldsson frá Selfossi sneri aftur til keppni og varð í 4. sæti og annar Selfyssingur, Geir Evert Grímsson varð í 5. sæti. Haukur Viðar varð síðan í 6. sæti og fékk að sjálfsögðu tilþrifaverðlaun mótsins. Ólafur Ingjaldsson frá Ferjunesi varð í 7. sæti í sinni fyrstu keppni á Bombunni, bíl Ásmundar bróður síns.

Tvöfaldur sigur í götubílaflokknum
Það var svo tvöfaldur sigur Selfyssinga í götubílaflokknum þar sem Óskar Jónsson sigraði og hlaut Skagabikarinn sem gefinn er til minningar um Ólaf heitinn Leósson á Ljónsstöðum. Ólafur V. Björnsson varð í 2. sæti í götubílaflokknum en hann og Óskar voru jafnir að stigum í keppninni með 1420 stig eftir harða keppni.

Tilþrifin svakalegu fest á mynd af Heiðu Björg Jónasdóttur.
Fyrri greinAuknar kröfur um úrbætur í Efstadal II
Næsta greinMagnús Öder snýr aftur heim