„Óhætt að segja að þetta hafi verið sætt“

Brenna Lovera skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Selfyssingar réttu úr kútnum í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld með góðum 1-0 sigri á Keflavík á heimavelli.

„Það er óhætt að segja að þetta hafi verið sætur sigur. Við erum búin að fá tvö stig úr síðustu fimm leikjum og nú fáum við þrjú stig úr einum leik. Þetta var góður leikur hjá okkur, fyrir utan tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik. Við stýrðum leiknum vel og Keflavík fékk ekki mörg færi á móti mörgum færum hjá okkur en ég hefði auðvitað viljað skora fleiri mörk,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfoss hafði mikla yfirburði í leiknum og átti til að mynda 18 marktilraunir á móti fjórum marktilraunum gestanna. Þetta var samt þolinmæðisvinna og ísinn var ekki brotinn fyrr en á 42. mínútu að Barbára Sól Gísladóttir sendi góða sendingu inn á vítateiginn á Brennu Lovera. Hún sneri með varnarmann í bakinu og náði góðu skoti á markið. Staðan var 1-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var tíðindalítill. Selfoss stýrði leiknum af öryggi en hefði að ósekju mátt bæta við fleiri mörkum.

Selfoss hefur nú 17 stig í 3. sæti deildarinnar en Keflavík er í 8. sæti með 9 stig.

Fyrri greinMargir á hraðferð í síðustu viku
Næsta greinHundarnir þefuðu uppi þrjá neysluskammta