Öflugur sóknarleikur skilaði sigri

Þórsarar skoruðu 114 stig þegar liðið sigraði ÍR í Domino’s-deild karla í körfubolta á útivelli í kvöld. Lokatölur voru 101-114.

ÍR-ingar byrjuðu betur í leiknum og komust í 13-4 áður en Þórsarar mættu til leiks. Þór jafnaði 19-19 um miðjan leikhlutann en ÍR-leiddi að honum loknum, 28-27. Þór náði hins vegar mest sautján stiga forskoti í 2. leikhluta en staðan var 49-61 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var jafn en ÍR minnkaði muninn í fimm stig í upphafi þess fjórða, 85-90. Þá tóku Þórsarar aftur á sprett og luku svo leiknum með góðu 2-11 áhlaupi og unnu öruggan sigur, 101-114.

Vincent Sanford var lang stigahæstur hjá Þór með 42 stig. Emil Karel Einarsson skoraði 17 stig, Tómas Heiðar Tómasson og Grétar Ingi Erlendsson 15, Þorsteinn Már Ragnarsson 8, Baldur Þór Ragnarsson 7, Nemanja Sovic 6 og Oddur Ólafsson 4.

Þór er í 8. sæti deildarinnar með 12 stig að tólf umferðum loknum. Næsti leikur liðsins er á heimavelli næstkomandi fimmtudag gegn spútnikliði Tindastóls sem situr í 2. sæti deildarinnar.

Fyrri greinRafmagnsstaurar brotnuðu og eldingavari eyðilagðist
Næsta greinHótel Örk hlýtur alþjóðleg golfverðlaun