Öflugur sigur hjá Hamri

Hamar vann góðan sigur á Hetti í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 98-76.

Fyrsti leikhlutinn var jafn framan af en á lokamínútum hans náðu Hvergerðingar að snúa leiknum sér í vil og breyta stöðunni úr 11-14 í 25-17. Þeir bættu svo um betur í 2. leikhluta og náðu mest 21 stigs forskoti, 44-23, en staðan var 46-30 í hálfleik.

Gestirnir byrjuðu betur í seinni hálfleik og minnkuðu muninn niður í sex stig en þá tóku Hvergerðingar við sér aftur og juku forskotið í 69-54 undir lok 3. leikhluta.

Hamar leiddi allan 4. leikhuta og gaf hvergi eftir þannig að uppskeran varð góður sigur og Hamar í 7. sæti deildarinnar með 12 stig.

Fyrirliðinn Halldór Gunnar Jónsson var stigahæstur Hvergerðinga með 26 stig, Danero Thomas skoraði 25 og tók 11 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson skoraði 18 stig, Snorri Þorvaldsson 10, Bragi Bjarnason og Bjarni Rúnar Lárusson 6, Aron Freyr Eyjólfsson 4 og Bjartmar Halldórsson 3.

Fyrri greinSelfoss sigraði HK í úrslitaleik
Næsta greinAndri Már semur við Selfoss