Öflugur liðssigur hjá Selfyssingum

Selfoss vann sjö marka sigur á Fjölni þegar liðin mættust í Vallaskóla í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Selfyssingar tóku öll völd þegar leið á leikinn og lokatölur urðu 29-22.

Fjölnismenn voru taplausir fyrir leikinn í kvöld en þjálfari liðsins er Arnar Gunnarsson, fyrrum Selfossþjálfari. Selfyssingar voru hins vegar aðeins með tvö stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar svo sigur í kvöld var bráðnauðsynlegur fyrir þá vínrauðu.

Það var hart barist í fyrri hálfleik, eftir tuttugu mínútna leik leiddu gestirnir með tveimur mörkum, 9-11, en Selfoss svaraði fyrir sig undir lok fyrri hálfleiks og fór með eins marks forskot inn í leikhléið, 15-14. Heimamenn höfðu síðan frumkvæðið í síðari hálfleiknum og juku forskotið smátt og smátt með skemmtilegum sóknartilþrifum og frábærri vörn. Að lokum skildu sjö mörk liðin að, 29-22.

Guðjón Ágústsson og Andri Már Sveinsson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk, Hergeir Grímsson og Jóhann Erlingsson 4, Daníel Róbertsson 3 og þeir Hörður Másson, Elvar Örn Jónsson, Sverrir Pálsson og Matthías Örn Halldórsson skoruðu allir eitt mark.

Sebastian Alexandersson varði 11 skot í marki Selfoss og var með 58% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 6 skot og var með 30% markvörslu.

Fyrri greinFjölmenni á haustfundi á Þingborg
Næsta greinEins stigs sigur á Ísafirði