Öflugt hjá Hamri í Sandgerði

Hamarsmenn unnu geysilega góðan 1-3 sigur á Reyni Sandgerði í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld og fjarlægðust með því botnlið deildarinnar.

Þetta var hörkuleikur þar sem fjögur mörk litu dagsins ljós en nokkuð létu þau á sér standa.

Fyrri hálfleikur var markalaus en á 64. mínútu kom Ingvi Rafn Óskarsson, lánsmaður frá Selfossi, Hvergerðingum yfir. Reynismenn jöfnuðu tæpum tíu mínútum síðar en Hamar var sterkari á lokasprettinum og bætti þá við tveimur mörkum.

Abdoulaye Ndiaye kom Hamri í 1-2 á 80. mínútu og þegar fjórar mínútur voru til leiksloka bætti Aron Már Smárason þriðja markinu við.

Þrátt fyrir sigurinn er Hamar áfram í tíunda sæti, nú með fjórtán stig.