Öflugt barna- og unglingastarf hjá Sleipni

Æskulýðsnefnd Hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi stendur fyrir öflugu barna og unglingastarfi. Skráning á námskeið um áramótin var mjög góð og eru nú 35 ungmenni á námskeiðum.

Alls eru í gangi 40 námskeiðseiningar en einnig verða haldin vornámskeið. Æskulýðsnefnd mun einnig vera í forsvari fyrir Hestafjör 2013 og stendur skráning yfir til 28. febrúar. Þátttaka í Hestafjörinu er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Reiðkennarar hjá Sleipni eru allir með reiðkennararéttindi en þeir eru: Ragnhildur Haraldsdóttir, Rósa Birna Þorvaldsdóttir, Hugrún Jóhannsdóttir og Páll Bragi Hólmarsson.

Nú þegar dimmasti tími ársins fer í hönd tóku nefndarmenn eftir því að mikil þörf var á að unga fólkið væri sýnilegra og í samvinnu við Sjóvá var gengið í að útvega öllum börnum á námskeiðum endurskinsvesti til að nota í skammdeginu og þegar kvölda tekur.

Fyrri greinVilja fá Ljósnetið á Klaustur
Næsta greinÞungatakmarkanir á Suðurlandi