Knattspyrnudeild Selfoss heldur stofnfund stuðningsmannaklúbbs félagsins á morgun, miðvikudaginn 16. júlí kl. 20:00 á efri hæð Miðbars.
Markmiðið með stofnun stuðningsmannaklúbbsins er að finna áhugasama stuðningsmenn Selfoss sem hafa metnað til að vinna að því að efla umgjörð og þjónustu við stuðningsmenn félagsins, fjölga stuðningsmönnum og bæta menningu innan klúbbsins.
„Í stækkandi samfélagi eru fleiri almenn verkefni sem koma á borð okkar í stjórn deildarinnar. Umfang starfsins er að aukast og því nær stjórnin ekki að halda utan um alla hluti með þeim hætti sem hún vill. Það er von okkar að það séu stuðningsmenn þarna úti sem hafa áhuga og metnað til að tryggja að umgjörð í kringum okkar stuðningsmenn verði framúrskarandi á landsvísu,“ segir Guðjón Bjarni Hálfdánarson, formaður meistaraflokksráð karla og gjaldkeri knattspyrnudeildarinnar, í samtali við sunnlenska.is.
„Við áttum okkur á því að það mun ekki gerast á einni nóttu heldur er þetta langtíma verkefni. Það er vilji stjórnar að setja aðstöðu og aðbúnað fyrir stuðningsmenn í forgang og til þess þurfum við öfluga stuðningsmenn með okkur í lið,“ bætir Guðjón við.

Hann segir að markmiðið sé að þarna verði góður og öflugur hópur sem hugsi um félagsstarf stuðningsmanna.
„Hlutverkið er að búa til vettvang fyrir fótboltaáhugamenn til að hittast og skemmtilegar stundir í kringum fótboltann. Knattspyrnudeildin er í góðu samstarfi við Miðbar, sportbar okkar Selfyssinga, sem gefur möguleika á 12 mánaða gleði í kringum fótboltann. Hvort sem það er að mæta á JÁVERK-völlinn á sumrin eða hittast yfir leikjum í enska boltanum eða meistaradeildinni. Fótboltaáhugamenn eiga því að geta fundið góðan félagsskap til að deila helsta áhugamáli sínu með.“
Öflugir stuðningsmenn geta smitað út frá sér
Að sögn Guðjóns hefur stjórn deildarinnar til dæmis haldið úti stuðningsmannahittingum fyrir leiki í sumar þar sem þjálfari meistaraflokks karla, Bjarni Jóhannsson, mætir og fer yfir liðið og svarar spurningum. Það hefur vakið skemmtilega athygli á liðinu og fjölgar í þeim hópi sem þangað mætir.
„Stuðningsmannaklúbburinn getur unnið að fjölbreyttum verkefnum og það eru engar kröfur frá okkur í stjórn deildarinnar um það hvernig stuðningsmenn vilja haga sinni samverustund. En það eru ýmis tækifæri í þessu, t.d. að byrja aftur með getraunakaffi yfir enska boltanum, skipuleggja stuðningsmannaferðir á útileiki og fleira. Möguleikarnir eru endalausir að mínu mati,“ segir Guðjón og hann hvetur alla áhugasama til að mæta á Miðbar annað kvöld kl. 20:00.
„Það er okkar mat að þeir sem hafa áhuga á þessu séu best til þess fallnir að halda utan um þessi mál. Þeir sem hafa ástríðu fyrir fótbolta og eru öflugir stuðningsmenn Selfoss geta smitað út frá sér og dregið aðra áhuga menn að. Öflugir stuðningsmenn eru eins og tólfti leikmaður liðsins, það hjálpar til við að sækja árangur og þurfa allir að leggjast á eitt til að halda áfram að byggja upp knattspyrnudeild Selfoss,“ segir Guðjón að lokum.

