Oddur með þrefalda tvennu

Hamar valtaði gjörsamlega yfir Ármann í viðureign liðanna í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Hveragerði voru 111-59 en Hvergerðingar skoruðu 70 stig í fyrri hálfleik.

Hvergerðingar kláruðu leikinn í fyrri hálfleik en staðan var 70-26 í hálfleik. Búið spil. Seinni hálfleikur var öllu rólegri en Hamar bætti lítillega við forskotið.

Samuel Prescott og Þorsteinn Gunnlaugsson voru með risaframlag fyrir Hvergerðinga og Oddur Ólafsson lagði glæsilega þrefalda tvennu í púkkið.

Hamar er í hörkubaráttu um að ná sæti í úrslitakeppninni og hlutirnir þurfa að ganga upp hjá liðinu í síðustu fjórum leikjunum í deildinni ef svo á að verða. Hamar er með 16 stig í 6. sæti, tveimur stigum á eftir ÍA og Val.

Tölrfæði Hamars: Þorsteinn Gunnlaugsson 29 stig/15 fráköst, Samuel Prescott Jr. 26 stig/15 fráköst/4 varin skot, Kristinn Ólafsson 14 stig/4 fráköst, Oddur Ólafsson 12 stig/10 fráköst/13 stoðsendingar, Sigurður Orri Hafþórsson 10 stig, Mikael Rúnar Kristjánsson 8 stig, Páll Ingason 6 stig, Stefán Halldórsson 2 stig, Bjartmar Halldórsson 2 stig/5 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 2 stig.

Fyrri greinÖruggt hjá Selfyssingum – naumt tap Mílunnar
Næsta greinHÍ bregst því trausti að vera háskóli allra landsmanna