Oddur kominn heim

Körfuknattleiksmaðurinn Oddur Ólafsson mun leika með Hamri í 1. deild karla í körfubolta á næstu leiktíð. Hamar hefur einnig framlengt við Örn Sigurðarson og Þorstein Gunnlaugsson.

Lárus Ingi Friðfinnsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hamars, fer mikinn í samningaviðræðum þessa dagana og er alla daga með pennann á lofti. Í gær greindi sunnlenska.is frá ráðningu Árna Þórs Hilmarssonar sem þjálfara kvennaliðs Hamars, sem og að Hallgrímur Brynjólfsson mun áfram þjálfa karlaliðið.

Oddur snýr nú aftur í Hamar eftir nokkurra ára fjarveru þar sem hann lék meðal annars með Val og Þór Þorlákshöfn. Oddur þekkir vel til í Frystikistunni í Hveragerði þar sem hann sleit nokkrum pörum af barnsskóm í sínum körfuboltauppvexti.

Þeir félagar Örn og Þorsteinn voru lykilmenn í liði Hamars á nýliðnu tímabili en þeir settu saman að meðaltali 31,3 stig og tóku 18,3 fráköst í leik og sýndu á góðum degi að erfitt var að standast þeim snúning í teignum.

Fyrri greinStarfsemi rannsóknarstofu dróst saman um 70%
Næsta greinKínóapizza með ekta pizzubotni (vegan og glútenfrí)