Oddur þjálfar hjá Tindastóli

Hvergerðingurinn Oddur Benediktsson hefur verið ráðinn yngriflokkaþjálfari á næsta tímabili hjá Tindastóli.

Oddur, sem er 23 ára gamall og upprennandi þjálfari mun verða í miklu starfi hjá körfuknattleiksdeildinni. Hann mun hefja störf þann 1. september nk. að því er www.tindastoll.is greinir frá.

Oddur mun verða aðalþjálfari 8. 9. og 10. flokks drengja, sem allir taka þátt í Íslandsmótinu. Honum til aðstoðar verður Karl Jónsson. Auk þessa mun Oddur þjálfa míkróboltann og einhverja minniboltaflokka.

Oddur hefur síðustu árin þjálfað hjá Laugdælum, Hrunamönnum og Hamri og hefur smám saman verið að afla sér reynslu og þekkingar og verið duglegur við að sækja námskeið og aðra möguleika á menntun.