Oddaleikur í Þorlákshöfn á laugardaginn

Styrmir Snær Þrastarson og félagar ferðast til Keflavíkur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar voru langt frá sínu besta þegar þeir mættu Stjörnunni í fjórða leiknum í undanúrslitum úrvalsdeildar karla í körfubolta. Stjarnan sigraði 78-58 og staðan í einvíginu er 2-2.

Þór leiddi eftir 1. leikhluta, 16-19, en Stjarnan náði að komast yfir fyrir hálfleik. Staðan var 36-35 í leikhléinu. Í seinni hálfleik fór að síga á ógæfuhliðina hjá Þórsurum þar sem lítið gekk upp í sóknarleik liðsins. Stjarnan jók forskotið jafnt og þétt þegar leið á leikinn og sigraði að lokum með tuttugu stiga mun.

Styrmir Snær Þrastarson var eini leikmaður Þórs sem var með eitthvað framlag að ráði, hann skoraði 14 stig og tók 5 fráköst. Larry Thomas var stigahæstur með 15 stig en afleita skotnýtingu.

Það verður því allt undir í Þorlákshöfn á laugardagskvöld þegar liðin mætast í oddaleik kl. 20:15. Liðið sem vinnur þann leik mætir Keflavík í úrslitum Íslandsmótsins.

Tölfræði Þórs: Larry Thomas 15/4 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 14/5 fráköst, Callum Lawson 9/8 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 7, Adomas Drungilas 6/8 fráköst, Ragnar Örn Bragason 3, Davíð Arnar Ágústsson 2/5 fráköst, Benedikt Hjarðar 2/4 fráköst.

Fyrri greinTengi opnar á laugardaginn
Næsta greinHamar og Stokkseyri í ham – KFR tapaði