Oddaleikur í Kaplakrika á fimmtudag

Karolis Stropus skoraði 4 mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar fóru illa að ráði sínu í kvöld þegar þeir tóku á móti FH í öðrum leiknum í einvíginu í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta. FH tók leikinn í sínar hendur frá fyrstu mínútu og Selfoss sá aldrei til sólar.

Selfoss missti boltann í fyrstu fimm sóknum sínum og eftir tæpar sex mínútur var staðan orðin 0-5. FH lét kné fylgja kviði og ekkert gekk upp í framhaldinu hjá Selfyssingum. Munurinn varð mestur tíu mörk og staðan var 9-19 í hálfleik.

Mistökum Selfyssinga fækkaði í seinni hálfleiknum en enginn glans var þó á leik þeirra enda úrslitin löngu ráðin. Selfoss náði að minnka muninn niður í sex mörk á lokakaflanum en FH hélt áfram að spila góða vörn og fengu markvörslu á mikilvægum augnablikum og lokatölur leiksins urðu 22-27.

Staðan í einvíginu er því 1-1 og fer oddaleikurinn fram í Kaplakrika á fimmtudagskvöld.

Sverrir og Sölvi sterkir í vörninni
Karolis Stropus var markahæstur Selfyssinga með 4 mörk og var einna líflegastur heimamanna í sókninni. Sverrir Pálsson og Sölvi Svavarsson komu inná í seinni hálfleik og voru frábærir í vörninni. Það dugði ekki til enda munurinn orðinn allt of mikill um miðjan leik.

Richard Sæþór Sigurðsson, Alexander Már Egan, Hannes Höskuldsson og Guðmundur Hólmar Helgason skoruðu allir 3 mörk, Tryggvi Þórisson og Hergeir Grímsson 2 og Sverrir Pálsson og Ragnar Jóhannsson 1 hvor.

Sölvi Ólafsson og Vilius Rasimas vörðu báðir 5 skot í marki Selfoss. Sölvi var með 39% markvörslu og Rasimas 17%.

Fyrri greinGrýlupottahlaup 1/2022 – Úrslit
Næsta greinHamar einum sigri frá titlinum