Oddaleikur á mánudagskvöld

Jose Medina sækir að körfu Skallagríms í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Staðan í einvígi Hamars og Skallagríms um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta er 2-2 eftir að Skallagrímur sigraði í leik fjögur í Borgarnesi í kvöld, 91-79. Úrslitin í einvíginu munu ráðast í oddaleik í Hveragerði á mánudagskvöld.

Skallagrímur hafði frumkvæðið lengst af leiknum og Hvergerðingar voru ekki að finna taktinn í upphafi. Staðan í hálfleik var 50-37.

Í upphafi 4. leikhluta hljóp mikil spenna í leikinn en Hamar skoraði tíu stig í röð og minnkaði muninn í tvö stig, 71-69. Leikurinn var í járnum þangað til fjórar mínútur voru eftir en þó skoraði Skallagrímur níu stig í röð og Hamarsmenn fóru að reyna misgóð þriggja stiga skot til að brúa bilið. Það tókst ekki og heimamenn í Borgarnesi fögnuðu öruggum sigri.

Jose Medina var stigahæstur hjá Hamri með 34 stig, 9 stoðsendingar og 7 fráköst en Ragnar Nathanaelsson var framlagshæstur með 19 stig og 13 fráköst.

Oddaleikurinn verður í Frystikistunni í Hveragerði kl. 19:15 á mánudagskvöld og þá mun ráðast hvort liðið spilar í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.

Skallagrímur-Hamar 91-79 (20-15, 30-22, 21-24, 20-18)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 34/7 fráköst/9 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 19/13 fráköst, Brendan Howard 13/11 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 6, Daði Berg Grétarsson 4/4 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 3/4 fráköst.

Fyrri greinBjörguðu 14 ára pilti á kænu af Laugarvatni
Næsta greinFundað um vindorku á Hvolsvelli