Óþarflega tæpur sigur Hamars

Hamar vann góðan sigur á Keflavík í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld, 90-85, þegar liðin mættust í Hveragerði.

Hamarsmenn voru mun ákveðnari í upphafi leiks og náðu fljótt þægilegu forskoti. Ellert Arnarson skoraði drjúgt framan af leik og Andre Dabney tók við sér í 2. leikhluta en að honum loknum var staðan 52-35 fyrir Hamar.

Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en Keflvíkingar komu heldur betur til baka á lokakaflanum og minnkuðu muninn niður í sex stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, 83-77. Lokamínúturnar voru æsispennandi en munurinn var þrjú stig þegar hálf mínúta var eftir. Keflavík skoraði 32 stig í síðasta fjórðungnum gegn 16 stigum Hamars. Lokasprettur Keflvíkinga kom hins vegar allt of seint og Hamar vann sanngjarnan sigur.

Andre Dabney var stigahæstur hjá Hamri með 28 stig, Ellert Arnarson skoraði 27 og Darri Hilmarsson 12. Ragnar Nathanaelsson skoraði 8 stig og tók 8 fráköst og Svavar Páll Pálsson skoraði 7 stig og tók 8 fráköst.

Fyrri greinSkoða samstarf í æskulýðsmálum
Næsta greinGáfu Mæðrastyrksnefnd hálft tonn af Pepsi