Úrvalsdeild karla í körfubolta hófst í kvöld og fyrsta verkefni Þorlákshafnar-Þórsara var að heimsækja ÍA á Akranes.
Nýliðarnir frá Akranesi voru greinilega til í slaginn en leikurinn var í járnum lengst af. Þórsarar byrjuðu betur og leiddu í leikhléi 49-54. Skagamenn voru búnir að komast yfir eftir tæpar fjórar mínútur í seinni hálfleik, 61-59, og eftir það var allt í járnum.
Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum leiddu Þórsarar 86-89 en þá tóku Skagamenn leikinn yfir. Allt fór í skrúfuna hjá Þór og Skaginn gerði 16-3 áhlaup sem tryggði þeim 102-92 sigur.
Rafail Lanaras var stigahæstur hjá Þór með 23 stig, Lazar Lugic skoraði 22 stig og tók 22 fráköst, Jacoby Ross skoraði 19 stig og sendi 9 stoðsendingar og Konstantinos Gontikas skoraði 10 stig.

