Nýja félagið heitir Jökull

Frá Landsmóti hestamanna. Mynd: Gígja D. Einarsdóttir

Nýtt hestamannafélag í uppsveitum Árnessýslu heitir Hestamannafélagið Jökull. Það varð til eftir sameiningu hestamannafélaganna Loga í Biskupstungum, Smára í Hreppum og Trausta í Laugardal.

Fyrsti aðalfundur hins nýja félags var haldinn þann 3. mars síðastliðinn. Á fundinum fór fram kosning um nafn félagsins og voru sjö nöfn sem starfsstjórn hafði tilnefnt í pottinum. Í seinni umferðinni var svo kosið um þau tvö nöfn sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferðinni, en það voru nöfnin Jökull og Kjölur. Kosningin fór þannig að nafnið Jökull hlaut flest atkvæði.

Kosning stjórnar fór þannig að Bragi Viðar Gunnarsson í Túnsbergi var kjörinn formaður en aðrir stjórnarmenn eru Ólafur Gunnarsson, Helgastöðum gjaldkeri, Svavar Jón Bjarnason, Reykholti ritari og Ragnheiður Eggertsdóttir, Borg, Ragnhildur Stefanía Eyþórsdóttir, Flúðum, Vilborg Ástráðsdóttir, Skarði og Vilborg Hrund Jónsdóttir, Böðmóðsstöðum meðstjórnendur.

Guðni Halldórsson og Hákon Hákonarson úr stjórn LH komu á fundinn og færðu félaginu góðar gjafir í tilefni dagsins; hestvænan búnað fyrir hindrunarstökk og brokkspírur sem eiga eftir að nýtast vel í starfi félagsins og sérstaklega æskulýðsstarfinu.

Að sögn Svavars Jóns Bjarnasonar, ritara hins nýja félags, var mikil ánægja á fundinum með að nýtt og sameinað hestamannafélag í uppsveitum Árnessýslu væri loksins orðið að veruleika og að sameiningin myndi lyfta grettistaki í félagsstarfi hestamanna á svæðinu. Í lok fundar varsameiningarnefnd og starfsstjórn, sem starfað hefur frá því síðasta sumar, þökkuð góð störf.

Fyrri greinAndri gefur kost á sér í 3. sætið
Næsta greinHrunamenn unnu í framlengingu – Hamar tapaði